Miðsala á tix.is https://tix.is/is/event/9737/blushati-i-reykjavik/
Blúshátíð í Reykjavík á Hilton Reykjavík Nordica 7. 8. og 9. apríl. Í boði eru miðar á stök kvöld eða Blúsmiðinn sem gildir á öll kvöldin. Takmarkað magn Blúsmiða er í sölu.
Þriðjudagurinn 7. apríl kl. 20.00 – Hilton Reykjavík Nordica
Óskar Logi Ágústsson og piltarnir í Vintage Caravan gleyma þungarokkinu þetta kvöld og bjóða upp á hreina blúsveislu ásamt mögnuðum gestum á borð við munnhörpuleikarann Sigurð Sigurðsson og gítargyðjuna Brynhildi Oddsdóttur.
Fyrir hlé trylla Blúsþrjótarnir mannskapinn en með tónleikunum heldur þessi magnaða og lífsglaða hljómsveit upp á 20 ára starfsafmæli sitt.
Tónlistarfólk framtíðarinnar hefur blúshátíð í ár þegar efnilegir nemendur tónlistarskóla FÍH sýna okkur að framtíðin er falleg og lofandi.
Miðvikudagurinn 8. apríl kl. 20.00 – Hilton Reykjavík Nordica
Búast má við blárri veðurviðvörun þegar Rick Estrin, heiðursgestur Blúshátíðar, stígur á svið. Hann blæs í munnhörpuna af krafti, snilld og einstakri mýkt. Þessi margverðlaunaði, vinsæli og stórskemmtilegi tónlistarmaður spilar með reynsluboltunum í Blue Ice Band.
Fyrir hlé fara Langi Seli og Skuggarnir á kostum með sinn stórskemmtilega og hrífandi rockabilly blús sem kemur okkur öllum á ið.
Fimmtudagurinn 9. apríl, skírdagur, kl. 20.00 – Hilton Reykjavík Nordica
Á lokakvöldi Blúshátíðar verður boðað til íslenskrar blúsveislu með djammi eins og það gerist best með Ragnheiði Gröndal, Guðmundi Péturssyni, Halldóri Bragasyni, Róberti Þórhallssyni, Birgi Baldurssyni og óvæntum leynigestum.
Fyrir hlé mun Rubin Pollock, gítarleikari Kaleo og Stefanía Svavarsdóttir eiga sviðið þar sem þau bjóða til sín hæfileikaríku en um fram allt skemmtilegu fólki í sannkallaða blúsveislu.
Eftir ‚stórtónleikana öll kvöldin verður Klúbbur Blúshátíðar starfræktur á Hilton Reykjavík Nordica. Þar heldur fjörið áfram fram eftir nóttu og ævintýri gerast þegar ólíkir tónlistarmenn hræra sannkallaðan blússeið.
Setning Blúshátíðar í Reykjavík fer fram laugardaginn 4. apríl með Blúsdegi í miðborginni. Þá leggur Blúshátíð Skólavörðustíginn undir sig. Skrúðganga verður frá Leifsstyttu kl. 14.00. Lúðrasveitin Svanur leikur nokkur lög og Krúser klúbburinn verður með glæsilega bílasýningu. Við setningu hátíðarinnar verður tilkynnt um val á heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíkur 2020. Boðið verður upp á lifandi blús á Skólavörðustígnum frá klukkan 14.00. Tónleikar verða á Borgarbókasafninu í Grófinn kl. 16.00.